Býflugnarækt

drotning

Árið 2000 voru flutt til Íslands átta samfélög ELGON bíflugna frá Svíþjóð. Aðal hvatamaður þessa framtaks var Egill Rafn Sigurgeirsson læknir en hann var nýkomin frá Svíþjóð þar sem hann hafði verið með búskap jafnframt læknisstarfi. Meðal annars var hann með 10 býflugnasamfélög og hélt námskeið um það starf hjá námsflokkum Reykjavíkur veturinn 1999 til 2000. Árangurinn var þessi innflutningur og flutti ég inn tvö af þessum samfélögum og staðsetti þau á Stokkseyri. Ýms áföll í flutningi urðu til þess að þessi samfélög urðu lítil og veikburða og lifðu þau ekki veturinn af.

Sumarið 2001 voru aftur flutt inn átta samfélög en í þetta skipti frá Noregi og önnur tegund. Þetta voru skandinavískar flugur sem fljúga við lægra hitastig og eru, að því sem mér  finnst, duglegri við fæðuöflun en um leið árásargjarnari. Ég flutti aftur inn tvö samfélög og staðsetti þau eins og hin, á Stokkseyri. Þessi tvö samfélög voru þau einu á landinu sem lifðu veturinn af. Ég þurfti hinsvegar að flytja þau frá Stokkseyri til Reykjavíkur.

Enginn innflutningur var vorið 2002 og voru samfélögin mín þau einu á landinu það haustið. Ég tók hinsvegar ekkert hunang frá þeim um haustið vegna flutngsins og slæmrar tíðar. Voru það ef til vill mistök því að vegna þess varð vetrarfóðrið þyngra og hefur það kanski átt þátt í að annað samfélagið dó um veturinn.

Um mánaðarmótin maí júní (2003) var hér á ferð norskur býflugnabóndi, Sverre Østby, með íslenskum tengdasyni og fjölskyldu. Hann á um það bil 50 samfélög og hafði rekist á heimasíðuna mína. Hafði hann mikinn áhuga á þessu framtaki okkar. Sýndi ég honum búin og kom margt fróðlegt fram. Því miður átti ég ekki hunang frá mér til að gefa honum en hann gaf mér norskt hunang og er það besta hunangið sem ég hef smakkað (fyrir utan mitt náttúrulega).

Egill flutti inn fjögur samfélög af KRAINER flugum frá Svíþjóð núna um miðjan júní (2003) og flutti ég þá mitt samfélag upp á Kjalarnes. Er mikill munur á tegundum hvað þessar flugur eru mikið friðsamari en mínar. Ætla ég að fá drottningu hjá honum og skipta búinu þannig að ég eigi tvö í haust.

Um mánaðarmótin júlí ágúst skipti ég búinu sem var orðið töluvert stórt. Einhvernvegin misfórust báðar drottningarnar og þær drottningar sem upp komu voru óbyrjur. Nú voru góð ráð dýr og ákvað ég að gera tilraun. Hafði Egill samband við Ingvar Pettersson í Noregi og gat hann útvegað mér tvær drottningar af þessari sömu skandinavísku tegund sem ég er með en mikið friðsamari flugur. Sendi hann þær til sænska landbúnaðarháskólans sem gekk úr skugga um heilbrigði þeirra og sendi þær síðan hingað með flugi. Tókst þetta ferli ágætlega og eru drottningarnar nú komnar í búin og verður spennandi að fylgjast með því hvernig þetta ævintýri endar.

Ég kíkti í búin seinnipartinn í vikunni á eftir og virtist allt hafa tekist vel. Sýnir þetta að auðvelt er að fá drottningar til endurnýunar erlendis frá ef stofninn hérna er orðin of skyldleikaræktaður. Best væri þó að verða sjálfbærir í þessum málum og halda landinu hreinu af bæði sjúkdómum og snýkjudýrum sem eru að leggja býflugnaræktina í Evrópu og víðar í rúst. Ef svo fer fram sem horfir verður Ísland sennilega eina ósýkta landið í Evrópu ef við pössum okkur á því að smygla ekki einhverjum óþvera inn í landið

Úr þessum tveim búum, þó meiripartinn úr öðru, fékk ég 12,7 kg. af hunangi. Er það meira en ég fékk á Stokkseyri árið 2001. Allt annað bragð er af þessu hunangi en því sem fékkst á Stokkseyri og skýrist það af annari gróðursamsetningu í nágrenni búanna. Er mikið megnara bragð af þessu hunangi og skýri ég það af mikilli Gullmuru og Blóðbergi en hvortveggja eru mjög lyktar- og bragðmiklar lækningajurtir. Er þetta hunang nú til sölu í Húsdýragarðinum.

Advertisements