Dagbók 2000 – 2005

Því miður eru öll gögn frá árunum 2000 til 2003 týnd. Ef ég finn þau set ég þau hér inn.

2004.

23. apríl 2004.
Fór og kíkti í búin í gær og kom í ljós eins og mig hafði grunað að annað samfélagið er dautt. Hitt er komið af stað fyrir u.þ.b. mánuði síðan og sá ég drottninguna fljótlega. Virtist megnið af flugunum vera síðan í fyrra haust og var ekki mikil orka í þeim. Þó sá ég flugur vera að koma með frjókorn og einnig sá ég svæði með púpum sem virtust vera að verða tilbúnar til að skríða út.

11. júní 2004.
Fór og leit á búið í gær 11. júní en þegar ég kom þangað var fólk með börn í nágrenninu og komst ég ekki í búið fyrr en um kl 17. Þess vegna kíkti ég bara í efri kassann og sá þegar að þar var mikið af ungviði. Fljótlega sá ég drottninguna þannig að ég bætti einni hæð ofaná búið og nú eru hæðirnar orðnar þrjár. Ég talaði við Egil og ákváðum við að fara fljótlega í gegnum búið og leyfa félagsmönnum “Bý” að fylgjast með en þar sem hann er að fara erlendis og ég er að vinna um næstu helgi verðum við að tala okkur saman og reyna að finna dag þar sem við getum verið báðir og veður er skaplegt. Ég komst að því að drottningarskiptin í fyrrahaust hafa haft mjög góð áhrif á samfélagið því að þó að ég hafi ekki þorað annað en að vera algallaður var allt annar andi í búinu núna. Eru flugurnar undan þessari drottningu mikið friðsamari og hefði ég sennilega getað verið bæði slæðu og hanskalaus. Stóð ég við annan mann c.a. meter frá búinu án nokkurra varna og létu þær okkur alveg í friði og það var ekki fyrr en ég fór að kíkja í búið að varðflugurnar fóru að suða í kringum mig og ógna aðeins. Ég (eða Egill) sendi póst með dagsetningunni sem við komum okkur saman um þegar hún verður komin á hreint á póstlista félagsins.

8. ágúst 2004.
Á fimmtudaginn síðasta komu þrjár skandinavískar drottningar frá Svíþjóð. Í gær var svo búinu skipt og gerð úr því þrír lífvænlegir afleggjarar og eitt lítið tilraunabú sem verður haft inni í gróðurhúsi. Það er tilraun til að vetra flugur og verður forvitnilegt að sjá hvernig það gengur. Þessi fjölgun búa hefði ekki tekist nema vegna þess að flugurnar hafa verið fóðraðar á sykurvatni í allt sumar til að örva drottninguna til varps. Það hefur aftur á móti þann ókost að ekki verður hægt að taka hunang frá þeim í haust. Ég kem til með að fóðra bæði búin áfram fram á haustið og vona að þau verði það sterk að þau lifi veturinn af.

 

 

2005.

21. maí 2005.
Ég fór í gegnum búin mín fimmtudaginn 19. maí þó veðrið væri ekki hagstætt. Mikill munur er á stærð búana og er gamla búið töluvert minna. Ég fann báðar drottningarnar og eru þær báðar farnar að verpa. Var ungviði á 3 römmum í hvoru búi. Var annað búið tvær hæðir en hitt þrjár og var ungviðið í efsta kassanum í þeim báðum. Tók ég einn kassa úr stærra búinu þannig að nú eru þau bæði tvær hæðir. Nógur fóðurafgangur er í báðum búunum eftir veturinn og töluverð umferð af söfnunarflugum inn í þau bæði. Mér brá þegar ég opnaði stærra búið en þar er drottningin sem ég fékk í fyrra og átti að vera sérvalin og tæknifrjóvguð til að fá sem friðsamastar flugur. Flugurnar voru hinsvegar verulega pirraðar og svipað árásargjarnar og norsku flugurnar sem ég fékk árið 2001. Gamla drottningin kippti sér ekkert upp við það þó að ramminn sem hún var á væri tekinn upp og skoðaður en sú yngri forðaði sér niður á botn og faldi sig þar. Prísaði ég mig sælann að hafa farið í gallann en ekki verið slæðu og hanskalaus eins og árið 2003. Ég byrjaði að fóðra flugurnar í vor strax og fyrsta lífsmarkið sást með þeim og ætla að halda því eitthvað áfram. Nú ætla ég að láta búin alveg í friði allavega næsta hálfa mánuðinn, jafnvel lengur.

3.7.2005.
Keypti eitt norskt bú af húsdýragarðinum til að styrkja mín bú þannig að nú er ég komin með þrjú bú.

 

10.7.2005.
Fór gegnum búin og setti kassa ofaná þau öll. Nú er elsta búið sem var minnst orðið stærst og flugurnar mjög árásargjarnar svo ég hef ekki komist í annað eins síðan ég þurfti að fara með búin frá Stokkseyri. Nú er ég komin með tvö bú tveggja hæða (norskir kassar) og eitt 4ra hæða (¾ Langstroth). Öll eru þessi bú í örum vexti. Nýasta búið sem ég keypti af húsdýragarðinum er þó sýnu minnst.

 

15.7.2005.
Fékk tvær Krainer drottningar og skipti stærsta búinu. Setti aðra drottninguna í nýja búið en skipti um norsku árásagjörnu drottninguna sem ég fékk frá húsdýragarðinum. Tvö drottningarhólf voru langt komin í búinu sem ég skipti og eyddi ég þeim báðum en vona að það auðveldi flugunum að taka við nýju drottningunni.

 

24.7.2005.
Ég skoðaði í þrjú bú fimmtudaginn 21. og fann allar drottningarnar. Nokkrum dögum áður hafði ég skoðað í fjórða búið og fundið drottninguna þar. Krainer drottningarnar eru komnar á fullt í varpi og hellingur af eggjum í báðum þeim búum. Flugurnar í búinu hjá gömlu drottningunni minni eru alveg arfavitlausar og ég er helst á því að það séu norsku flugurnar sem eru þar enn í meirihluta. Vonandi lagast það þegar afkvæmin hennar eru komin aftur í meirihluta. Mér fanst vera heldur lítið af hunangi en meira af frjókorni og það getur verið vegna þess að tíðin hefur verið óhagstæð til hunangssöfnunar. Nú er komið betra veður og þá gætu búin sprungið út þannig að það er spennandi tími framundan.

Advertisements